Pedromyndir


Friðrik Vestmann prentari stofnaði Pedromyndir ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Hjaltadóttur árið 1965. Í fyrstu var aðeins opið í 1 klst. á dag á milli kl. 17 og 18 síðan voru myndirnar unnar á kvöldin og nóttunni. Starfsemin varð fljótt mjög umfangsmikil og ekki leið á löngu þar til hjónin voru bæði komin í fullt starf við framköllun.

Fyrsta verslun Pedromynda var að Hafnarstræti 85 á Akureyri. Síðan fluttist verslunin að Hafnarstræti 98 (gamla Hótel Akureyri). Það var svo í júní árið 1984 að Pedromyndir ásamt Hans Petersen stofna fyrirtækið Myndval og hefja litframköllun, þá fyrstu norðan heiða. Það fyrirtæki framkallaði fyrir allt norður og austurland í um það bil 3 ár, eða allt til 1987 þegar fyrsta hraðframköllunarvél Pedromynda var tekin í notkun í Hafnarstræti 98. Árið 1989 opna Pedromyndir síðan aðra verslun sína að Hofsbót 4 með nýjustu framköllunarvélum sem þá var völ á. Starfsemin var síðan sameinuð í stórri glæsilegri verslun að skipagötu 16 þann 20. júní 1992 þar sem hún er enn til húsa meðal nýjunga sem teknar voru í notkun þá var fyrsta litljósritunnarvélin á Akureyri. Árið 2001 ákváðu Friðrik og Guðrún að selja rekstur Pedromynda og setjast í helgan stein.

Inga Vestmann og Þórhallur Jónsson keyptu þá reksturinn en Þórhallur hafði þá starfað við fyrirtækið í um 15 ár. Fyrirtækið hefur tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum til að laga sig að breyttu umhverfi. Filmuframköllun fer minnkandi og stafræna tæknin er enn í mikilli þróun. Pedromyndir hafa keppst við að vera í farabroddi í þessari þróun og er myndsalan á vefnum og íslenski framköllunarhugbúnaðurinn sem flestir stærri framköllunaraðilar á landinu nota í dag dæmi um frumkvöðlastarfið sem á sér stað í fyrirtækinu. Myndavélasala og þjónusta við áhugaljósmyndara er orðin stór þáttur í rekstri Pedromynda. Canon myndavélar og aukahlutir fyrir þær eru áberandi auk Sony myndavéla. Pedromyndir hafa gefið út 3 ljósmyndabækur fyrir Canon EOS notendur og hafa þær verið mjög vinsælar auk þess sem Þórhallur ásamt sonum sínum hefur haldið námskeið um allt land fyrir byrjendur í ljósmyndun með Canon EOS vélar.